Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 829  —  498. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2020.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) bar á árinu 2020 hæst umræður um heimsfaraldur COVID-19 og viðbrögð aðildarríkjanna við honum, formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu og baráttan gegn loftslagsbreytingum.
    Eftir að COVID-19 tók að breiðast út í aðildarríkjum þingmannanefndarinnar og ferðatakmarkanir voru settar á tók nefndin ákvörðun um að fundir færu fram rafrænt þar til ástandið batnaði. Þá var fyrirhugaðri þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR) sem halda átti í september 2020 í Tromsö frestað til apríl 2021. Nefndarmenn deildu upplýsingum um áhrif heimsfaraldursins á þingstörfin og ræddu m.a. algjört hrun í ferðaþjónustu sem hefur haft alvarleg áhrif á efnahag norðurslóða. Þá hafi faraldurinn aukið möguleika þingmanna til þátttöku í fjarfundum og það sé jákvæð þróun sem halda mætti á lofti eftir að faraldurinn hefði gengið yfir. Enn fremur voru nefndarmenn sammála um að baráttan við heimsfaraldur hafi varpað ljósi á mikilvægi frekari samstöðu og alþjóðlegs samstarfs á norðurslóðum.
    Formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu var í brennidepli en Ísland tók við formennskunni til tveggja ára af Finnum í maí 2019. Áætlunin ber yfirskriftina Saman til sjálfbærni á norðurslóðum, sem vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri og er áminning um að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Í áætluninni er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Þá er haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins sem krefjast samvinnu yfir landamæri. Rússar taka við formennsku af Íslandi í maí 2021 en Norðurskautsráðið fagnar 25 ára afmæli það ár.
    Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og ræddu fulltrúar þingmannanefndarinnar um það hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum þeirra, m.a. á samfélög á norðurslóðum og hitastig hafsvæðis, en loftslagsbreytingar eru tvöfalt hraðari á svæðinu en annars staðar í heiminum. Þá var lögð áhersla á mikilvægi Parísarsamkomulagsins og að Bandaríkin verði aftur aðili að samkomulaginu eftir að Joe Biden tæki við sem nýr forseti 20. janúar 2021.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á jafnréttismál á norðurslóðum og mikilvægi þess að vísindasamfélagið deili enn frekar upplýsingum milli ríkja og sameini vísindarannsóknir. Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna málefni hafsvæða á norðurslóðum, menntamál og hvernig stuðla megi að áframhaldandi stöðugleika á svæðinu. Að auki fóru fram umræður um stefnur aðildarríkjanna og Evrópusambandsins í málefnum norðurslóða.


2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál (CPAR).
    Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál ( Conference of Parliamentarians of the Arctic Region, CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál ( Standing Committee of Parliamentarians of the Arctic Region, SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
    Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka sem byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Enn fremur er rík áhersla lögð á að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði í alþjóðasamskiptum. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snerta forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar gefa til kynna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Talið er að þær loftslagsbreytingar sem verði á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki á norðurslóðum eins og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna en annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.

    Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins. Sá fyrsti var undirritaður af aðildarríkjunum á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011, um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Segja má að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Annar samningurinn var undirritaður á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013, um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi, og sá þriðji árið 2017, um aukið alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar árið 2020 voru Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn voru Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Smári McCarthy, þingflokki Pírata. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu 2020.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2020.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu og tók formaður Íslandsdeildar þátt í þeim öllum. Tveir af þremur fundum nefndarinnar fóru fram sem fjarfundir af völdum heimsfaraldurs COVID-19. Jafnframt sótti formaður norrænan aukafund nefndarinnar í Stokkhólmi 3.–4. mars. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Strassborg 14.–15. febrúar 2020.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður. Helstu mál á dagskrá voru stefna Evrópusambandsins í norðurslóðamálum, starf Háskóla norðurslóða og málefni hafsvæða á norðurslóðum. Þá var rætt um starfið fram undan og viðfangsefni næstu ráðstefnu nefndarinnar sem fyrirhugað var að halda í september 2020 í Tromsö. Marcel Kolaja, varaforseti Evrópuþingsins, og Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndarinnar um norðurslóðamál (SCPAR), stýrðu fundinum. Fulltrúar allra norðurskautsríkjanna voru viðstaddir, nema Bandaríkjanna.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Terkel Petersen, ráðgjafa í norðurslóðamálum hjá Evrópuþinginu, á nýrri stefnu ESB í málefnum Norðurslóða og afskiptum Evrópuþingsins af norðurslóðum. Hann lagði áherslu á að jafnvægis væri gætt milli náttúrunytja og náttúruverndar og að nauðsynlegt væri að virkja frumbyggja í starfi og verkefnum á norðurslóðum. Ari Trausti Guðmundsson spurði Petersen hvort ESB styddi það að láta 2/ 3 hluta þekktra jarðefnaeldsneytisbirgða liggja kyrrar og hvernig það rímaði við aukna vinnslu á norðurslóðum. Petersen svaraði því til að ESB viðurkenndi rétt strandríkja til að vinna auðlindir á hafsbotni og hefði enn fremur þá stefnu að takmarka kaup á mengandi orku og stuðla að framþróun í notkun vistvænnar orku.
    Jari Viren, sérlegur ráðgjafi ráðherraráðs ESB, ræddi einnig um nýja stefna ESB í norðurslóðamálum við nefndarmenn. Hann sagði þörf á öflugum sjóðum til framþróunar á norðurslóðum og nefndi í því sambandi að stórveldin þrjú hefðu öll vaxandi hagsmuna að gæta á svæðinu sem ýtti á aukin afskipti ESB. Fulltrúi Rússa, Alexander Akimov, sagði frá nýjum lögum um norðurslóðir og aukinni áherslu Rússa á viðskipti við aðrar þjóðir á norðurslóðum og á siglingaleiðir jafnt sem innviði norðurslóða. Um leið lagði hann áherslu á að vinna ætti innan ramma sjálfbærrar þróunar.
    David McAllister, formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins, minnti á að samvinna ESB og Norðurskautsráðsins yrði að byggjast á formlegum reglum og alþjóðalögum. Óskaði hann enn og aftur eftir því að ESB fengi áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Hann lagði jafnframt áherslu á að ESB dýpkaði stefnu sína í málefnum norðurslóða, efldi sjóði til að sinna verkefnum í þágu norðurslóða, stuðlaði að friðsæld og samvinnu á svæðinu og styrkti samtalið milli ESB og frumbyggja. Ari Trausti Guðmundsson spurði McAllister um þátttöku ESB við að koma á stafrænu sambandskerfi fyrir norðurslóðir. Hann svaraði því til að ESB hefði áhuga á að taka þátt í öllum verkefnum sem bættu hag og hagnað á norðurslóðum. Mæta þyrfti stefnu Kína og auknum áhuga á norðurslóðum með öflugum fjárfestingum bæði af hálfu ESB og ríkja á norðurslóðum.
    Andreas Schwab, formaður sameiginlegrar þingmannanefndar EES, ræddi um framtíðarsamband nefndarinnar og þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) en fram að þessu hefur aðeins einn þingmaður á vegum Evrópuþingsins verið skipaður til þátttöku í nefndinni. Eirik Sivertsen, formaður SCPAR fagnaði því að grundvöllur værir fyrir frekara samstarfi nefndanna og komið yrði á víðtækari samvinnu milli ESB og SCPAR.
    Þá hélt Raphael Goulet, forstöðumaður málefna hafsvæða hjá ráðherranefnd ESB, erindi um fiskveiðistefnu ESB. Í máli hans kom fram að töluvert hefði áunnist í verndar- og réttarmálum hafsins á norðurslóðum. Aðlögun að loftslagsbreytingum, Parísarsamkomulagið og svæðisbundin verndun líffræðilegrar fjölbreytni voru lykilatriði í framsögu hans. Fagna bæri svonefndum Polar Code í norðurhöfum og nýlegum samningnum um tímabundið bann við fiskveiðum á svæðinu, en hefja bæri rannsóknir sem fyrst, eins og samningurinn kvæði á um. Þá bæri að nota sams konar samningalíkan fyrir fleiri hafsvæði.
    Toma Galli, fulltrúi Króatíu í Evrópuráðinu, flutti erindi um áherslur ráðsins í málefnum norðurslóða. Hann boðaði aukin afskipti Evrópuríkja af málefnum svæðisins, lágmörkun áhættu af hvers kyns rányrkju og friðsamlega sambúð. Þá sagði hann áherslu lagða á virðingu fyrir lögum og réttindum og þörfum frumbyggja sem og annarra þegna norðurskautsríkjanna.
Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, kynnti í framhaldinu stefnu og áherslur í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu. Hann sagði frá næstu viðburðum formennskunnar og möguleika áheyrnarfulltrúa til þátttöku. Jafnframt greindi hann frá yfirferð utanríkisráðuneytisins, að beiðni Íslandsdeildar, á stöðu framkvæmdar ráðstefnuyfirlýsingu CPAR frá 2018.
    Næstur tók til máls Lars Kullerud, rektor Háskóla norðurslóða (HN), og kynnti starf skólans og helstu verkefni. Hann greindi frá auknum rannsóknum á sífrera og mikilvægi þess að HN beitti sér fyrir framhaldsmenntun frumbyggja. Ritaðar eru um 10.000 vísindagreinar um norðurslóðir á ári, flestar á ensku og rússnesku. Flestar eru um náttúruvísindi en félagsvísindi vanrækt. Aðeins 1% af rannsóknarfé á heimsvísu fer í þær greinar á norðurslóðum. Alexander Akimov hrósaði formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og starfsemi HN. Hann sagði stjórnvöld vera að þróa nýja norðurslóðastefnu og vilja aukna samvinnu við ESB-ríki og alþjóðlega einingu. Hann sagði mikilvægt að norðurslóðir væru samvinnusvæði með áherslu á rannsóknir og nýsköpun.
    Að lokum fór fram fundur þingmannanefndarinnar, áheyrnarfulltrúa Vestnorræna ráðsins og Einars Gunnarssonar. Á honum var megináhersla lögð á að heyra í Lisu Murkowski öldungadeildarþingmanni og fulltrúa Bandaríkjanna í nefndinni símleiðis og fá upplýsingar um hvað væri á döfinni í málefnum norðurslóða í Bandaríkjunum. Þá var rætt um næstu ráðstefnu CPAR sem fyrirhugað er að halda í Tromsö í apríl 2021. Rauði þráðurinn í samtali þingmannanna af því tilefni voru málefni hafsins, m.a. auknar rannsóknir, öryggismál í breiðum skilningi, loftslagsmál og Parísarsamkomulagið, sjálfbær þróun, nýtt heimskautaár (tveggja ára alþjóðarannsóknir á norður- og suðurskautssvæðunum) og, að tillögu Ara Trausta Guðmundssonar, velferð íbúa norðurslóða. Allt kynnu þetta að vera málefni sem sett yrðu á oddinn á komandi þingmannaráðstefnu (CPAR) í Tromsö. Þá gerðu nefndarmenn grein fyrir helstu verkefnum í málefnum norðurslóða í aðildarríkjunum. Ari greindi frá yfirferð utanríkisráðuneytis Íslands á yfirlýsingu ráðstefnuyfirlýsingar CPAR frá 2018. Hann sagði þetta vera í fyrsta sinn sem slík könnun færi fram á viðbrögðum eins aðildarríkis við áskorunum yfirlýsingar þingmannaráðstefnunnar. Slíkt væri til eftirbreytni í hinum aðildarríkjum CPAR og gæti nýst í starfi nefndarinnar til framtíðar.

Fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 4. júní 2020.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru viðbrögð þjóðþinga aðildarríkjanna við COVID-19 og starfið fram undan hjá þingmannanefndinni með áherslu á næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem fyrirhugað er að halda í Tromsö fyrri hluta árs 2021. Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndarinnar stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá voru innlegg þátttakenda um COVID-19 og áhrif heimsfaraldursins á þingstörfin. Aaja Chemnitz Larsen greindi frá því að fyrirhugað væri að opna landamæri Grænlands 15. júní 2020 en ferðamenn þyrftu að fara í fimm daga sóttkví við komu. Lisa Murkowski frá Bandaríkjunum greindi frá því að í kringum 100.000 manns hefðu látist af völdum heimsfaraldursins í Bandaríkjunum. Ástandið í Alaska væri þó nokkuð gott en um 500 manns hefðu smitast í fylkinu. Ferðamenn þyrftu að fara í 14 daga sóttkví við komuna til Alaska og algjört hrun hefði orðið í ferðaþjónustu á svæðinu sem hefði haft alvarleg áhrif á efnahag fylkisins.
    Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, sagði frá ástandinu á Íslandi og helstu aðgerðum stjórnvalda. Hann greindi frá því að Alþingi hefði verið að störfum meðan faraldurinn geisaði en þó með fjarlægðartakmörkunum í þinghúsinu. Ísland yrði opnað fyrir erlendum ferðamönnum 15. júní 2020 en sýni yrðu tekin úr öllum við komuna eða þeir settir í sóttkví í 14 daga. Larry Bagnell og Larry Maguire frá Kanada lýstu ástandinu í ríkinu sem þeir sögðu líkt og í Alaska. Stjórnvöld hefðu lagt fram aðgerðapakka til aðstoðar í þeim efnahagsvanda sem við blasti í kjölfar faraldursins og hefði verið gripið til sérsniðinna aðgerða á svæðunum á norðurslóðum vegna sérstakra aðstæðna þar. Mikka Kärnä frá Finnlandi sagði að smitum hefði fækkað verulega í landinu og væri hugað að því að opna landamærin fyrir ferðamönnum. Þá væri verið að afgreiða aðgerðapakka fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem hefðu beðið fjárhagslegt tjón af heimsfaraldrinum.
    Mattias Karlsson frá Svíþjóð greindi frá því að yfir 4.500 manns hefðu látist af völdum kórónuveirunnar í landinu. Hann sagði stærsta vandamálið vera að veiran hefði náð að dreifa sér á hjúkrunarheimilum landsins og erfitt hefði reynst að hægja á útbreiðslu hennar. Stjórnvöld hefðu gripið til ýmissa aðgerða til að draga úr áhrifum faraldursins á efnahagslífið en ástandið væri víða erfitt. Eirik Sivertsen frá Noregi sagði að stjórnvöld hefðu líkt og í hinum aðildarríkjunum gripið til fjölda aðgerða til aðstoðar við efnahagslífið en mikið hrun hefði orðið á olíumörkuðum heims og það kæmi illa niður á olíuframleiðslu Norðmanna. Að lokum sagði Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, frá sameiginlegri ályktun ráðsins frá mars 2020 þar sem ríkisstjórnir vestnorrænu landanna eru hvattar til þess að vinna saman að því að sigrast á kórónuveirufaraldrinum.
    Næsti liður á dagskrá var umræða um viðbrögð við sameiginlegum áskorunum á norðurslóðum í ljósi COVID-19. Lisa Murkowski nefndi erfiðar aðstæður slökkviliðsmanna á norðurslóðum vegna aukins fjölda eldsvoða af völdum loftslagsbreytinga. Aaja Chemnitz Larsen og Ari Trausti Guðmundsson tóku undir með Murkowski og Eirik Sivertsen bætti við að hrunið í ferðaþjónustu kæmi afar illa við norðurslóðir. Í framhaldinu lagði formaður til að hann skrifaði bréf til ríkisstjórna aðildarríkjanna þar sem óskað væri eftir upplýsingum um aukinn fjölda eldsvoða, viðbrögð aðildarríkjanna við þeim og hugsanlegt samstarf.
    Því næst var rætt um fundi fram undan og greindi Lisa Murkowski frá því að Bandaríkin fyrirhuguðu að halda næsta SCPAR fund í Washington í nóvember eða desember 2020. Áformað hafði verið að halda fund SCPAR í Washington í júní en honum var frestað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þá sagði formaður nefndarinnar að næsta ráðstefna CPAR sem hefði átt að halda í september 2020 hefði verið frestað til mars eða apríl 2021 og mundi því formennska Norðmanna í nefndinni lengjast í samræmi við frestun ráðstefnunnar, þ.e. til mars 2021. Enn fremur upplýsti framkvæmdastjóri nefndarinnar, Samu Paukkunen, að hann mundi hætta störfum hjá finnska þinginu og sem framkvæmdastjóri nefndarinnar. Hann greindi frá því að hann hefði ráðið sig í nýtt starf hjá Finnish Institute of International Affairs og þakkaði gott samstarf undanfarin ár. Fundargestir þökkuðu Paukkunen fyrir vel unnin störf og óskuðu honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. Í framhaldinu lagði fulltrúi Danmerkur/Grænlands í nefndinni, Aaja Chemnitz Larsen, til að danska þingið tæki við stöðu framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar af Finnum. Hún fylgdi málinu eftir hjá danska þinginu og upplýsti formann um afstöðu þingsins fyrir næsta fund nefndarinnar.
    Að lokum var rætt um drög að yfirlýsingu CPAR-ráðstefnunnar 2021 og athugasemdir við þau. Nefndarmönnum yrðu send ný drög á haustmánuðum og þau rædd frekar á næsta fundi SCPAR sem fyrirhugaður væri í nóvember 2020. Lisa Murkowski áréttaði mikilvægi þess að efni yfirlýsingarinnar nyti stuðnings allra aðildarríkjanna og að baráttan gegn loftslagsbreytingum yrði áberandi. Ari Trausti lagði áherslu á skýrleika yfirlýsingarinnar og mikilvægi þess að hún yrði styttri en undanfarin ár. Því næst lagði Larry Bagnell til að boðið yrði upp á fjarþátttöku í fundum og ráðstefnum SCPAR í framtíðinni. Heimsfaraldurinn hefði opnað möguleika þjóðþinga og þingmanna á að taka þátt í fjarfundum í auknum mæli og það væri jákvæð þróun sem halda mætti á lofti eftir að faraldurinn hefði gengið yfir.

Fjarfundur þingmannanefndar um norðurskautsmál 3. desember 2020.
    Fjarfundur þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) var haldinn 3. desember. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru kynning á nýjum norðurslóðastefnum aðildarríkjanna og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Þá var rætt um starfið fram undan með áherslu á ráðstefnuyfirlýsingu næstu þingmannaráðstefnu um norðurslóðamál (CPAR) sem fyrirhugað er að halda í Tromsö 12.–14. apríl 2021. Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndarinnar, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var umræða um dagskrá og ráðstefnuyfirlýsingu næstu ráðstefnu CPAR sem hefði átt að halda í september 2020 en hefur verið frestað til 12.–14. apríl 2021. Fyrirhugað er að halda ráðstefnuna í Tromsö en formaður mun tilkynna nefndarmönnum mánuði fyrir áætlaðan dag hvort það gangi eftir eða hvort halda þurfi ráðstefnuna rafrænt vegna heimsfaraldursins. Dagsetning ráðstefnunnar miðast við að hún fari fram áður en næsti ársfundur Norðurskautsráðsins verður haldinn í Reykjavík í maí 2021.
    Formaður kynnti drög að dagskrá ráðstefnunnar þar sem fjögur þemu eru til umfjöllunar. Fyrsti hluti ráðstefnunnar mun fjalla um 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem fer fram í Glasgow 2021, annar hluti um áhrif loftslagsbreytinga á samfélög á norðurslóðum, þriðji um loftslagsbreytingar og viðskipti og fjórði hlutinn um norðurslóðir árið 2050. Þá verður rætt um heimsfaraldur COVID-19 og mikilvægi Parísarsamkomulagsins. Jafnframt fer fram kynning á formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem lýkur í maí 2021 þegar Rússar taka við formennskunni til næstu tveggja ára. Þá á Norðurskautsráðið 25 ára afmæli 2021 og verður þess áfanga minnst í dagskránni.
    Næst var rætt um drög að yfirlýsingu CPAR-ráðstefnunnar 2021 og athugasemdir við þau. Bandaríska öldungardeildarþingkonan Lisa Murkowski áréttaði mikilvægi þess að tengsl milli ráðstefnuyfirlýsingar og þema ráðstefnunnar væru skýr og að baráttan gegn loftslagsbreytingum yrði gegnumgangandi áhersluatriði. Grænlenska þingkonan Aaja Chemnitz Larsen tók undir orð Murkowski og lagði til að áhersla yrði á þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í tengslum við COP26 í Glasgow. Þá sagði hún þörf á nýju alþjóðlegu heimskautaári (e. International Polar Year) til að auka enn frekar samstarf á heimskautasvæðunum.
    Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar, kynnti tillögur og athugasemdir Íslandsdeildar við ráðstefnuyfirlýsinguna þar sem m.a. var lögð áhersla á að sjónum yrði sérstaklega beint að minnihlutahópum og jafnréttismálum auk vandamála sem skapast við losun kolefnis á norðurslóðum. Þá ræddi hann um mikilvægi þess að vísindasamfélagið deili enn frekar upplýsingum og sameini vísindarannsóknir. Hann nefndi sérstaklega rússneska vísindamenn í því sambandi en skortur hefur verið á því að þeir deili upplýsingum út fyrir landsteinana. Einnig óskaði hann eftir því að nefndin ræddi nánar hvernig best væri að orða þann lið í yfirlýsingunni sem snýr að öryggismálum og því að halda norðurslóðum áfram sem friðsælu lágspennusvæði þannig að ekki sé farið út fyrir umboð nefndarinnar. Enn fremur ítrekaði hann mikilvægi þess að ráðstefnuyfirlýsingin yrði styttri og hnitmiðaðri en undanfarin ár. Þá voru nefndarmenn sammála um að mikilvægi Parísarsamkomulagsins yrði nefnt í yfirlýsingunni auk heimsfaraldurs COVID-19. Nefndarmönnum verða send ný drög í byrjun árs 2021 og þau rædd frekar á næsta fundi SCPAR í febrúar 2021.
    Ari Trausti greindi nefndarmönnum því næst frá því að Íslandsdeild hefði fyrr á árinu sent yfirlýsingu síðustu ráðstefnu CPAR frá Inari til utanríkisráðuneytis Íslands og óskað eftir upplýsingum um framkvæmd einstakra liða yfirlýsingarinnar. Ráðuneytið hafi brugðist vel við beiðninni og sent Íslandsdeild upplýsingar um stöðu mála. Hann lagði til að niðurstöður þeirrar vinnu yrðu nýttar frekar í starfi nefndarinnar, t.d. með yfirferð á næsta fundi þingmannanefndarinnar. Þá væri áhugavert að skoða hvort eitthvað af tillögum nefndarinnar væri sýnilegt í yfirlýsingu Norðurskautsráðsins. Einnig greindi formaður sænsku landsdeildarinnar, Mattias Karlsson, frá því að Svíþjóð hefði samþykkt nýja stefnu í norðurslóðamálum. Helstu áherslur í stefnunni eru á loftslagsbreytingar, lífsskilyrði samfélaga á norðurslóðum og alþjóðalög og réttindi.
    Næsti dagskrárliður fjallaði um formennsku í Norðurskautsráðinu og kynnti Aðalheiður Þorsteinsdóttir, deildarstjóri norðurslóðamála hjá utanríkisráðuneyti Íslands, fundargestum framgang formennsku Íslands en henni lýkur í maí 2021. Hún sagði yfirskrift formennsku Íslands í ráðinu, Saman til sjálfbærni á norðurslóðum, vísa til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjist samvinnu yfir landamæri. Hún minnti líka á að starf ráðsins hefur frá upphafi fyrst og fremst snúist um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Aðalheiður sagði formennskuna hafa gengið vel og verkefni samkvæmt áætlun þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Í framhaldinu tók rússneski þingmaðurinn Vladimir A. Torlopov til máls og sagði undirbúning vel á veg kominn við að taka við formennsku í ráðinu í maí 2021–2023. Hann sagði mikinn metnað lagðan í verkefnið og að megináhersla yrði lögð á baráttuna gegn loftslagsbreytingum en einnig á samfélög á norðurslóðum. Hann áréttaði mikilvægi ráðsins og ábyrgð formennskuríkis á að efla enn frekar framgang þess.
    Þá greindi Lisa Murkowski nefndarmönnum frá nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum og hugsanlegum áhrifum þeirra á norðurslóðastefnu Bandaríkjanna. Hún sagði sumarið hafa verið afar erfitt í Bandaríkjunum, ekki síst í ljósi kerfisbundins kynþáttahaturs sem birtist m.a. í dauða Georges Floyds, sem lést eftir að lögreglumaður þrengdi að hálsi hans, óvæginnar og óþægilegrar kosningabaráttu og heimsfaraldurs í hömlulausum vexti. Hún sagði ljóst að breytinga væri að vænta með nýjum forseta demókrata, Joe Biden, sem tæki við embættinu 20. janúar 2021. Hann hefði sigrað naumlegar í kosningunum en margir bjuggust við og þjóðin væri klofin eftir kjörtímabil Donalds Trumps. Varðandi málefni norðurslóða á Murkowski von á því að ríkisstjórn Bidens horfi til þeirra áherslna sem voru við lýði hjá ríkisstjórn Obama þar sem mikil áhersla var lögð á loftslagsbreytingar. Þá býst hún við að Bandaríkin verði aftur aðili að Parísarsamkomulaginu en Bandaríkin sögðu sig formlega úr því í stjórnartíð Trumps. Murkowski sagði COVID-19 hafa gríðarleg áhrif í Bandaríkjunum og rúmlega 270.000 manns hafi látist af völdum sjúkdómsins. Í Alaska er faraldurinn vaxandi og ástandið alvarlegt en horft væri til þess að bólusetningar hæfust þar 15. desember 2020.
    Aaja Chemnitz Larsen spurði Murkowski hvort hún teldi áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi minnka með nýjum forseta. Murkowski sagðist hafa haft áhyggjur af því hversu litla áherslu ríkisstjórn Obama hafi lagt á fólk á norðurslóðum og eingöngu horft til loftslagsbreytinga en hún vonaðist til þess að Biden mundi muna eftir því að fólk býr á norðurslóðum. Hún sagði búast við góðum samskiptum við Grænland með nýrri ríkisstjórn og nýrri ræðismannsskrifstofu í Nuuk. Ari Trausti spurði Murkowski hvort hún vænti breytinga á samskiptum Bandaríkjanna og Íslands við forsetaskiptin og taldi hún svo ekki verða.
    Að lokum var rætt um fundi fram undan og greindi Murkowski frá því að Bandaríkin hefðu fyrirhugað að halda næsta SCPAR-fund í Washington 24. febrúar 2021 en líklegt þætti að hann yrði haldinn rafrænt í ljósi heimsfaraldurs kórónuveiru.

Alþingi, 2. febrúar 2021.

Ari Trausti Guðmundsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
varaform.
Björn Leví Gunnarsson.